Fyrirtækjagripdeildir útskýrðar

Mynd CC rwkvisual

Þetta innslag hér að neðan er með því skárra sem ég hef séð frá RÚV síðan þeir ráku Kristinn Hrafnsson fyrir of mikla blaðamennsku.

Kastljós virðist hafa lagt í nokkra rannsóknarvinnu og kortlagt hina svokölluðu „Öfugu samruna í kjölfar skuldsettrar yfirtöku“ fléttu, en alræmt dæmi um þessa fléttu lifir meðal þjóðarinnar í sögunni um hvernig Óli í Olís notaði ávísun sem hann bað viðtakendur að „geyma í nokkra daga“ til að kaupa félagið, en þegar hann náði tökum á sjóðum félagsins, þá „lagði hann inn fyrir tékkanum“ úr sjóðum Olís sjálfs.

Í „góðærinu“ var þessi flétta fáguð með aðstoð hers endurskoðenda og skattalögfræðinga þannig að útkoman var einhvers konar ferli sem þeir telja löglegt (þó það sé siðlaust) og eftir stormsveip þessháttar „öfugra samruna“ sitja helstu fyrirtæki þjóðarinnar í skuldasúpu sem breytir rekstrargrundvelli þeirra í slíkt fen að nánast er ómögulegt að reka þau nema í einokunarumhverfi þar sem mjólka má almenning.

Það er athyglisvert að síðast í umfjöllun Kastljóssins kemur í ljós frá Skattstjóra að stofnunin vissi af þessu svindli, en stjórinn segir hendur sínar og embættisins hafa verið bundnar, væntanlega þá af stjórnvöldum, vegna þess að hann fékk ekkert auka fé til að elta þessi skattsvik uppi.

Kastljósið bregst þar með því að spyrja ekkert frekar út í þetta.  Frá mínum bæjardyrum séð hefði Skattstjóri getað hætt öllu aðgerðum sínum gegn venjulegum borgurum, sleppt því að elta uppi hundraðþúsundkall hér og þar hjá þeim sem gerðust of skapandi þegar þeir fylltu út akstursskýrslur sínar og einbeitt sér að þessum risastóru svikum, því þar voru milljarðar sem mátti ná í, og þessar fléttur voru ekki beinlínis fágætar á þessum ruglárum.

Jafnvel þó ekkert hefði hafst upp úr þeirri rannsókn, þá hefði hún allavega haft kælandi áhrif á vitstola brjálæðinga sem voru iðnir við að skuldsetja fyrirtæki okkar upp í rjáfur og demba svo afleiðingunum á þjóðina nokkrum árum síðar.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s